fimmtudagur, júní 07, 2007

2 góðir fiskréttir
Uppskriftirnar eru fengnar frá Ólöfu Björnsdóttur, þjálfara í líkamsræktarstöðinni Hress í Hfj. Ég er búin að prófa þær báðar og mæli með þeim.

Pönnufiskur með spergilkáli og tómötum

600 gr roðlaus fiskur
1 dós tómatar
1 laukur, saxaður
10 sveppir, sneiddir
1 haus spergilkál, brytjað niður
salt og pipar
1 msk fersk steinselja
basilika
1 gerlaus grænmetisteningur
sítrónusafi

Fiskur skorin í bita og kryddaður með salti og pipar. Dreypa sítrónusafa yfir og geyma aðeins. Léttsteikja grænmetið í 1 msk af olíu. Tómatdós og basilika út í og blanda saman. Láta krauma í 2 mín. Fiskbitum raðað ofan á og steinselju stráð yfir. Lokið á og gufusoðið. Gott með brúnum hrísgrjónum.

Fiskpottur Gullu gellu

2 laukar
2-3 epli
2 tsk. hot madras karrý (ég átti það ekki en notaði karrý og smá chilli)
1-2 flök af fiski
salt og pipar
fiskikrydd frá pottagöldrum

Laukar og epli rifin niður í matvinnsluvél eða á rifjárni (eða bara saxað niður eins og ég gerði). Hitað í smá olíu á pönnu og kryddað með karrý. Fiskbitar kryddaðir með salti, pipar og fiskikryddi. Fiskbitum raðað ofan á maukið á pönnunni, lokið sett á og gufusoðið í nokkrar mínútur. Einfalt og gott. Kartöflur og kál með.

Þar sem ég bý ekki svo vel að eiga pönnu með loki hef ég smellt réttunum í eldföstu móti inn í ofn og sett álpappír yfir.
Eplakökuuppskrift
Þessi er sett inn sérstaklega fyrir hina upprunalegu og einu og sönnu Binnu ;o)
125 g hveiti
125 g sykur
125 g smjörlíki
4-5 epli (Jonagold t.d.)
kanelsykur
súkkulaðirúsínur
salthnetur
rjómi eða ís
Vinna saman hveiti, sykur og smjörlíki. Brytja eplin í eldfast mót og dreifa súkkulaðirúsínum og hnetum yfir. Dreifa deiginu svo yfir allt heila klabbið og kanil þar yfir. Baka við 180°c þar til tilbúið....

mánudagur, mars 06, 2006

Nammi namm!

Ég gerði geggjaðan kjúklingarétt í gær, svo góðan að ég ætlaði bara aldrei að hætta að borða. Hafði oft heyrt uppskriftina en aldrei prófað hana sjálf. Googlaði hana svo bara í gær og volá:
4 kjúklingabringur
3 dl Hunts tómatsósa (bara þessi venjulega)
1 tsk salt
1/2 tsk svartur pipar
1 msk karrý
4 dl matreiðslurjómi (eða venjulegur ef þið viljið)
Blandið saman tómatsósu, salti, pipar og karrýi og hellið yfir bringurnar í eldföstu móti. Bakið við 200°c í 20 mín. Hellið þá rjómanum yfir og bakið áfram í a.m.k. 20 mín í viðbót. Einfaldara gæti það ekki verið.
Gott með t.d. hrísgrjónum og salati. Örugglega líka geggjað að hafa hvítlauksbrauð eða nan brauð.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Sætsterkur fiskréttur

600 gr roðflett ýsuflök
salt (herbamere) og pipar
cashew hnetur

Sósa:
1-1 ½ dl mango chutney
½ grænt/gult epli
1 cm rautt chilli
1 hvítlauksrif
½ -1 msk japönsk sojasósa
1-2 msk vatn

Skerið fiskinn í mátulega bita, kryddið og steikið á pönnu örskamma stund (bara rétt til að loka). Setjið í eldfast mót.
Saxið epli, chilli og hvítlauk smátt og setjið ásamt mango chutney, sojasósu og vatni í lítinn pott og hitið saman. Hellið svo yfir fiskinn í mótinu. Dreifið cashew hnetum yfir eftir smekk. Bakið í ofni í c.a. 15 mínútur.
Berið fram með kartöflum, hrísgrjónum eða hvítlauksbrauði og djúsí fersku salati. Namm namm….

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Fylltar kjúllabringur

Kjúklingabringur eru ótrúlega skemmtilegt hráefni til matargerðar því þær bjóða upp á svo marga möguleika. Á sumrin borðar maður þær þurrar af grillinu (það þarf nú að steikja þær í gegn...) og lætur sig hafa það en hvað ef maður vill hafa þær djúsí og safaríkar? Þá er gott að setja þær í sósu í ofninum eða fylla þær af e-u gómsætu!

4 kjúklingabringur

Fylling:
100 gr fetaostur (stappaður)
100 gr rjómaostur
grænar ólífur eftir smekk (saxaðar)
2 hvítlauksrif (söxuð)
grófmalaður svartur pipar

Ofan á:
chilli sósa frá heinz

Byrjið á því að blanda fyllinguna. Gerið síðan holu langsum í bringurnar og troðið eins mikið af fyllingu inn og hægt er. Setjið bringurnar í eldfast mót og restina af fyllingunni með. Penslið chilli sósu ríflega yfir allt saman. Bakið í ofni við 180-200 gráður í 30-40 mín. Gott með kartöflum (örugglega hrísgrjónum líka) og salati. Verði ykkur að góðu.

Ostapizza

Ég ætla nú svo sem ekkert að gefa uppskrift að þessu sinni, ekki þannig séð. En við skötuhjúin gæddum okkur á gómsætri ostapizzu à la mama um síðustu helgi og fengum okkur að sjálfsögðu rauðvín með :oP Við hnoðuðum bara saman okkar venjulega pizzubotn og settum á hann pizzasósu og osta eftir smekk. Við notuðum piparost, fetaost (í vatni), rjómaost, hvítan kastala og svo rifinn ost ofan á allt saman. Við erum hvorug hrifin af svona grænmygluostum en þeir þykja víst lostæti á svona pizzur.... Síðan var pizzan borðuð með sultu eins og venja er þegar ostapizzur eiga í hlut. En til að toppa þetta allt saman bættum við við hvítlauksolíu og klettasalati(ruccola)! Það setti sko algjörlega punktinn yfir i-ið.
Salat ofan á pizzu hljómar nú ekkert sérlega vel en klettasalat passar ótrúlega vel með hvaða pizzu sem er. Við smökkuðum svona fyrst úti í Köben og þá var pizzan með ferskum mozzarella, cherrytómötum, hráskinku og klettasalati *sleeeeef* og svipaða pizzu fengum við okkur líka í Þýskalandi. Þannig að þetta er greinilega hipp og kúl í úglandinu...................

miðvikudagur, október 05, 2005

Bananakarrýkjöt

Nafnið á þessari hljómar ekkert sérlega vel en þetta bragðast ótrúlega vel. Ég lofa. Ég hef ekki eldað þetta sjálf ennþá en fékk þetta í matarboði og varð að setja þetta hér inn. Enda skemmtilega öðruvísi réttur.

4 kjúllabringur (eða 2 svínalundir...)
3 bananar
500 ml matreiðslurjómi
karrý
salvia= sage
salt
pipar

Skerðu kjötið í 3 cm sneiðar (...) og steiktu það upp úr smjöri í 2-3 mín á hvorri hlið. Settu það svo í eldfast mót með frekar háum köntum. Settu hálfan bolla af vatni á pönnuna til þess að leysa upp góða bragðið, láttu sjóða niður þar til 1-2 msk eru eftir og helltu því yfir kjötið. Helmingaðu bananana og kljúfðu eftir endilöngu. Settu nú smjör á pönnuna (óþarfi að þrífa á milli...), smelltu bönunununununum þar á og brúnaðu þá. Þeim er síðan raðað ofan á kjötið í eldfasta mótinu, allt saman kryddað með svörtum pipar, 1 tsk af salti og 2 tsk af salviu. 1 msk af karrýi er blandað útí matreiðslurjómann og blöndunni hellt yfir kjötið og bananana í eldfasta mótinu. Þetta er svo sett í 180°c heitan ofn og bakað í 25-30 mín. Rétturinn er borinn fram með hrísgrjónum, mangó chutney, kókosmjöli, salthnetum og rúsínum (þetta extra meðlæti er borið fram í sér skálum hvert fyrir sig og mér finnst það algjörlega ómissandi). Bon apetit.

Kjúklingasalat

2 kjúllabringur skornar í mátulega munnbita og hjúpaðar í eftirfarandi kryddlegi:

c.a. 1 dl mangó chutney
2 tsk mild madras karrý
smá chilli krydd eða ferskt chilli ef vill
smá olía
smá vatn

Innihaldsefnunum er hrært saman og olían og vatnið notað til að þynna löginn. Eftir að kjúklingnum hefur verið blandað saman við er þetta látið standa smá í ísskáp. Þetta er síðan steikt á pönnu.
Á meðan kjúllinn er í ísskápnum er gott að gera salatið. Mér er svosem sama hvað þið notið í ykkar salat en mér finnst best að nota rucola salat, nóg af tómötum, gúrku, papriku, fetaost (í vatni), ristuð sólblómafræ og síðast en alls ekki síst ristaðar cashaw hnetur. Nammi namm. Svo er auðvitað snilld að bæta við melónubitum eða jarðarberjum.
Svo er steikta kjúllanum bara bætt ofan á salatið og herlegheitin borðuð með bestu lyst.

þriðjudagur, október 04, 2005

Fiskur með sojagrænmeti

hvítur fiskur (gjarnan ýsa, magn fer eftir því hve margir eru í mat)
herbamere krydd (eða annað salt)
svartur pipar
smá hveiti

allskonar grænmeti, s.s. brokkólí, laukur, gulrætur, paprika og sveppir
hvítlaukur
soja sósa
matreiðslurjómi

Fiskurinn er skolaður, hreinsaður og skorinn í mátulegar sneiðar (eftir smekk). Hveitinu og kryddinu blandað saman og fiskisneiðunum velt upp úr blöndunni. Þær eru síðan steiktar á pönnu upp úr olíu (má steikja smá til að loka og baka svo í ofni ef vill).
Grænmetið er skorið í mátulega bita og það steikt upp úr olíu í potti. Hvítlaukur marður yfir eftir smekk (c.a. 1-4 rif). Svo er alveg góðum slatta af sojasósu hellt yfir (hmm, hef aldrei mælt það) og síðan matreiðslurjóma í hæfilegu magni þannig að þetta verði nothæft sem e-s konar sósa með fiskinum (ekki samt löðrandi sósa, meira svona blautt grænmeti - grænmetið er samt ekki mauksoðið!!). Þetta á að verða svona ljósbrúnt á litinn og ótrúlega gott á bragðið.
Svo er fiskurinn bara settur á disk og grænmetið/sósan höfð með ásamt kartöflum eða hrísgrjónum.
Úff, vissi ekki að það væri svona erfitt að koma uppskrift frá sér. Vonandi skilst þetta og ykkur tekst að malla þetta. Ég mæli sterklega með þessu svona öðru hvoru til að breyta til. Grænmetið/sósan er líka snilld með grilluðu kjöti og bakaðri kartöflu!

Nammi namm.....

Hér koma hinar ýmsustu uppskriftir sem hafa kitlað bragðlauka mína og nærstaddra í gegnum tíðina. Uppskriftirnar koma úr ýmsum áttum og eru sjaldan hugarsmíð mín frá grunni en oftar en ekki hef ég breytt þeim og bætt þær eftir mínum smekk. Verði ykkur að góðu ;o)